Íþróttamiðstöðin Lágafell við Lækjarhlíð í Mosfellsbæ var vígð í gær, en fyrsti áfangi mannvirkjanna var tekinn í notkun á liðnu hausti.
Íþróttamannvirkin eru um 5.000 fermetrar að stærð. Þar er íþróttasalur, saunaklefi, hvíldarherbergi og nuddherbergi ásamt tilheyrandi búnings- og hreinlætisaðstöðu. Ennfremur úti- og innisundlaug, barnalaug, vaðlaug, þrjár vatnsrennibrautir, tveir heitir pottar og nuddpottur. Innisundlaugin er með lyftanlegum botni þannig að hægt er að stilla vatnsdýptina.
Í tengslum við sundlaugarsalinn eru skiptiklefi fyrir fatlaða og áhaldageymsla. Á annarri hæð salarins er vaktherbergi þar sem útsýni er yfir útisvæðið og innisundlaugarsalinn. World Class verður með líkamsrækt í húsinu og kaffihús er í anddyrinu.