Vinstri græn gagnrýnd fyrir að nýta ekki oddastöðu sína

Hörð gagnrýni kom fram í garð Vinstri grænna á íbúaþingi Varmársamtakanna í Álafosskvos í Mosfellsbæ í dag þar sem þeir voru sakaðir um aðgerðarleysi í umhverfismálum en flokkurinn er í oddastöðu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Á fundinum voru hugmyndir samtakanna að nýrri tengingu Helgafellsbrautar við Vesturlandsveg kynntar auk þess sem þar fóru fram pallborðsumræður um rétt almennings til að hafa áhrif á skipulag í sínu nánasta umhverfi.

Samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu samtakanna var tilgangurinn með þinginu sá að stofna til umræðu meðal íbúa um fleiri valkosti en til þessa hafa verið skoðaðir varðandi legu Helgafellsbrautar. Þá segir að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi hingað til hafnað þeirri tillögu VS að bjóða íbúum að velja milli valkosta og taka þátt í skipulagsferlinu þrátt fyrir að almennur samhljómur sé á meðal fulltrúa stjórnmálaflokkanna um að virða beri rétt almennings til að hafa áhrif á skipulag í sínu nánasta umhverfi.

Fulltrúar allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokksins tóku þátt í pallborðsumræðum á þinginu og var það gert að sérstöku umræðuefni. Þá var rætt var um þann vanda sem Mosfellsbæingar standa frammi fyrir vegna legu Vesturlandsvegar og þeirrar gífurlegu umferðaraukningu sem búast megi við í gegnum bæinn á næstu árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert