Hæstiréttur hefur staðfest þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, að vísa skuli frá málum sem Fjármálaeftirlitið höfðaði í tengslum við rannsókn á því hvort stofnast hefði virkur eignarhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Vísar Hæstiréttur til þess, að sparisjóðurinn sé ekki lengur til heldur hafi sameinast Sparisjóði vélstjóra undir nafninu Byr og Fjármálaeftirlitið hafi fallist á þann samruna.
Stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar samþykkti árið 2005 framsal á stofnfjárhlutum í sparisjóðnum til tiltekinna aðila. Fjármálaeftirlitið hóf í kjölfarið rannsókn á því hvort stofnast hefði virkur eignarhlutur með stofnfé í sparisjóðnum.
Fjármálaeftirlitið tilkynnti síðan sjö mönnum að þeir teldust hafa myndað virkan eignarhlut án þess að lagaskilyrða hefði verið gætt og að atkvæðisréttur þeirra yrði takmarkaður þannig að þeir færu sameiginlega ekki með meira en 5% atkvæðisrétt í sparisjóðnum.
Kærunefnd sem starfar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi felldi þessar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins úr gildi og í kjölfarið höfðaði Fjármálaeftirlitið mál gegn mönnunum sjö og krafðist þess að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi.
Þegar málið var til meðferðar fyrir héraðsdómi var samruni Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar samþykktur. Segir í dómi Hæstaréttar, að við samrunann hafi orðið til nýr sparisjóður og þar sem úrskurðurinn, sem krafist var ógildingar á, hafi ekki tekið til eignar í þessum nýja sparisjóði, hafi Fjármálaeftirlitið ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.