Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst telur, að ríkissjóður gæti hagnast á því að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara og öryrkja vegna þess að skatttekjur muni aukast.
Í skýrslu, sem Rannsóknarsetrið kynnti í dag, kemur m.a. fram að ef hætt verður að tengja bætur við atvinnutekjur hafi það tvenns konar áhrif á stöðu ríkissjóðs. Í fyrsta lagi muni bæturnar aukast og á hinn bóginn vinni fólk að líkindum meira en það geri nú þannig að skatttekjur ríkissjóðs aukast.
Stofnunin gerir ráð fyrir því, að atvinnuþátttakan aukist hægt því nokkur tími líði áður en fólk átti sig að fullu á þeim breytingum sem orðið hafa og breyti áformum sínum í samræmi við það.
Vitnað er í nýlega könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar, sem sýndi að um 29% eldri borgara á aldrinum 65-71 árs, gætu hugsað sér að vinna launavinnu ef tekjurnar skertu ekki lífeyri eða aðrar bætur þeirra. Þetta eru tæplega 4000 manns. Stofnunin segir, að sé reiknað með að 4000 eftirlaunaþegar fari út á vinnumarkaðinn og vinni sér inn sem nemi meðallaunum fólks á þessum aldri, verði skattgreiðslur hópsins ríflega 4 milljarðar króna á ári en afnám tekjutengingar ellilífeyris hjá þessum 4000 einstaklingum kosti ríkið um 600 milljónir króna á ári. Mismunurinn er því 3,4 milljarðar króna.