Segir hagkvæmt fyrir opinbera aðila að selja fasteignir sínar

Heppi­legt væri fyr­ir ríki og sveit­ar­fé­lög að selja fast­eign­ir sín­ar fast­eigna­fé­lög­um og leigja þær svo af þeim. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Viðskiptaráð Íslands hef­ur gefið út og er það mat skýrslu­höf­unda, að ríkið gæti losað um hátt í 80 millj­arða króna ef fast­eign­ir yrðu seld­ar.

Í skýrsl­unni seg­ir, að stór fyr­ir­tæki og ein­hver sveit­ar­fé­lög hafi í vax­andi mæli komið fast­eign­um sín­um í hend­ur einka­rek­inna fast­eigna­fé­laga. Reynsla þeirra hafi sýnt, að bygg­inga- og rekstr­ar­kostnaður minnk­ar. Þannig hafi bygg­ing­ar­kostnaður nokk­urra skóla, sem eign­ar­halds­fé­lagið Fast­eign hf. hafi byggt og rekið fyr­ir sveit­ar­fé­lög, verið fjórðungi lægri en kostnaður vegna sam­bæri­legra skóla hjá op­in­ber­um aðilum.

Í skýrsl­unni er reynt að kort­leggja um­fang fast­eigna rík­is­ins og þess hús­næðis sem ríkið leig­ir af einkaaðilum. Niðurstaðan er sú að 85% af því hús­næði sem ríkið not­ar er í rík­is­eigu, en 15% er leigt af einkaaðilum. Þessi skipt­ing sé mjög mis­jöfn eft­ir ráðuneyt­um og und­ir­stofn­un­um þeirra, sem sýni að svo virðist sem eng­in heild­stæð stefna sé til staðar í þess­um mála­flokki.

Það er mat skýrslu­höf­unda að ríkið gæti losað um hátt í 80 millj­arða króna ef fast­eign­ir yrðu seld­ar og því gæti verið um að ræða um­fangs­mestu einka­væðingu Íslands­sög­unn­ar. Legg­ur Viðskiptaráð til, að féð verði allt notað í að greiða upp skuld­ir. Ríkið myndi þannig spara fjár­magns­kostnað til viðbót­ar við þann bygg­ing­ar- og rekstr­ar­kostnað sem spar­ast af fast­eign­un­um. Þýðing­ar­mikið sé að slík­ur sparnaður verði notaður til að lækka skatta.

Skýrsl­an verður kynnt á ráðstefnu um einkafram­kvæmd í Há­skól­an­um í Reykja­vík í dag klukk­an 15:30.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka