Silja Aðalsteinsdóttir hlaut íslensku þýðingarverðlaunin

Silja Aðalsteinsdóttir tók við verðlaununum úr hendi forseta Íslands.
Silja Aðalsteinsdóttir tók við verðlaununum úr hendi forseta Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Silja Aðalsteinsdóttir hlaut íslensku þýðingarverðlaunin í ár fyrir þýðingu sína á bókinni Wuthering Heights eftir Emily Brontë sem bókaútgáfan Bjartur gaf út. Forseti Íslands afhenti verðlaunin sem veitt voru í þriðja sinn í dag, á Alþjóðlegum degi bókarinnar á Gljúfrasteini.

Sex þýðendur voru tilnefndir fyrir verk sín á síðasta ári. Fyrir utan verðlaunahafann voru eftirfarandi þýðendur tilnefndir:

Atli Magnússon fyrir þýðingu sína ábókinni Nostromo eftir Joseph Conrad, útg. Mál og menning
Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson fyrir þýðingu sína á bókinni Umskiptin eftir Franz Kafka, útg. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur
Fríða Björk Ingvarsdóttir fyrir þýðingu sína á Dætur hússins, útg. Salka.
Kristian Guttesen fyrir þýðingu sína á bókinni Brekkan eftir Carl Frode Tiller, útg. Salka

Að þessu sinni nema verðlaunin 400.000 kr.

Í dómnefndaráliti segir að með þýðingu sinni á Wuthering Hights eftir Emily Bronte hafi Silju Aðalsteinsdóttur tekist að flytja skáldverk frá miðri 19. öld yfir á trúverðugt nútímamál og auðvelda þannig aðgengi yngri kynslóða að þessu sígilda verki.

Þar segir: „Wuthering Hights er átakamikil og margradda ástarsaga sem gerist í sveitum Englands í upphafi 19. aldar. Í áreynslulausum texta, sem tekur mið af tungutaki okkar samtíma, nær Silja að koma hrjáðum röddum og lynggrónum vindheimum afar vel til skila. Þýðing hennar er á auðugu og blæbrigðaríku máli, heldur tryggð við frumtextann eins og kostur er og vitnar í leiðinni um hugkvæmni og listfengi þýðanda sem er samgróinn íslenskri tungu eftir ára tuga starf á menningarakrinum."

Dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Silja Aðalsteinsdóttir skuli hljóta Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2007 fyrir að vekja Wuthering Hights til lífs á ný í íslenskum samtíma.

Í dómnefndinni sátu:

Rúnar Helgi Vignisson, formaður,
Gunnþórunn Guðmundsdóttir,
Jórunn Sigurðardóttir.

Silja Aðalsteinsdóttir hlaut íslensku þýðingarverðlaunin í ár.
Silja Aðalsteinsdóttir hlaut íslensku þýðingarverðlaunin í ár. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert