„Alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning Íslands í dag"

Forsvarsmenn Húsaleigu ehf. og IntJob óskuðu eftir birtingu eftirfarandi yfirlýsingar:

„Undanfarin misseri hefur dægurþátturinn Ísland í dag fjallað ítrekað um aðbúnað erlendra verkamanna á Íslandi. Margt sem fram hefur komið í umfjölluninni er misvísandi eða hreint út sagt rangt, þegar tekið er tillit til allra staðreynda málsins.

Í ljósi þeirra fjölmörgu rangfærslna sem fram hafa komið sjá forsvarsmenn Húsaleigu ehf. sig tilneydda til þess að leita réttar síns fyrir dómstólum. Lögmanni fyrirtækisins hefur verið falið að kæra Sölva Tryggvason, dagskrárgerðarmann hjá Íslandi í dag, Steingrím Sævar Ólafsson, ritstjóra þáttarins, og Jakob Skaptason, viðmælanda þáttarins í kvöld. Kært verður fyrir ærumeiðingar og rógburð. Þá verður farið fram á að fjölmörg ummæli í þættinum í kvöld verði dæmd dauð og ómerk og að ofangreindur viðmælandi verði dæmdur ómerkingur orða sinna.

Forsvarsmenn Húsaleigu ehf. hafa ítrekað reynt að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum við forsvarsmenn þáttarins, en jafnan talað fyrir tómum eyrum. Þegar slíkur „fréttaflutningur" er viðhafður neyðist fólk til þess að draga þá ályktun að umræddir fréttamenn kæri sig ekki um að fréttir þeirra séu eyðilagðar með staðreyndum.

Tökum dæmi.

Þær sjónvarpsmyndir sem Ísland í dag notaði í umfjöllunina í kvöld voru margar hverjar gamlar. Myndirnar voru teknar skömmu eftir að núverandi eigendur fengu húsnæðið afhent sl. sumar og voru að vinna að breytingum á því. Óhætt er því að segja að myndirnar gefi skakka mynd af híbýlunum eins og þau eru í dag.

Í umfjöllun Íslands í dag er sagt að 47 menn deili litlu húsnæði þar sem aðeins eru tvær salernisaðstöður og ein sturtuaðstaða. Hið rétta er að fjórar salernisaðstöður og fjórar sturtuaðstöður eru í húsinu. Þá eru í húsinu 37 menn á vegum IntJob starfsmannaleigu, auk þess sem fimm herbergi eru leigð af öðrum aðilum. Leigjendurnir deila með sér alls 450 fermetrum með sameign.

Allar uppsagnir á leigu leigjenda miðast við mánaðamót og við 30 daga fyrirvara. Í þeim tilfellum sem leigusamningum hefur verið sagt upp hefur það ætíð verið gert skriflega.

Um mánaðamótin mars-apríl sagði eigandi hússins, Húsaleiga ehf., upp öllum leigjendum hússins og tekur sú uppsögn gildi 1. maí. Frá og með þeim degi mun húsið allt vera leigt einum aðila.

Leiguverð húsnæðisins er og hefur verið markaðsverð á hverjum tíma. Þar ræður lögmálið framboð og eftirspurn. Húsnæðið hefur ávallt verið fullt og færri fengið en vilja.

Ummæli viðmælanda Íslands í dag dæma sig sjálf. Þó er rétt að benda á að umræddur maður er húsvörður í húsinu og gagnrýni hans á umgengni og frágang er í besta falli gagnrýni á hans eigin störf.

Allir starfsmenn IntJob starfsmannaleigu, móðurfélags Húsaleigu ehf., eru með skriflegan ráðningarsamning, útbúinn af Vinnumálastofnun á móðurmáli viðkomandi starfsmanns. Rétt er að undirstrika að IntJob starfsmannaleiga fer ávallt í hvívetna að kjarasamningum.

Að lokum má benda á að ekkert er hæft í þeim ásökunum að starfsmönnum IntJob sé meinað að ráða sig til annarra fyrirtækja á Íslandi í tvo mánuði eftir að störfum þeirra lýkur fyrir IntJob. Enda væri slíkt ólöglegt með öllu.

Hér að ofan eru tekin örfá dæmi sem sýna hversu fráleitur málflutningur Íslands í dag hefur verið. Svona fréttamennska er til þess eins fallin að níða af fólki skóinn án þess að til þess sé nokkur ástæða. Forsvarsmenn Húsaleigu ehf. og IntJob harma slíkan fréttaflutning og sjá sig því knúna til þess að bregðast við með þeim hætti sem að ofan getur."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert