Beðið eftir sérfræðingum til að meta mengunina í aðrennslisgöngunum

Ljóst er að úrbætur þarf að gera á loftræstingu í …
Ljóst er að úrbætur þarf að gera á loftræstingu í aðrennslisgöngunum. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

„Þessi vinnustöðvun mun gilda eitthvað áfram, það er von á sérfræðingum okkar, efnaverkfræðingum og fagstjóranum hingað á fimmtudaginn," sagði Þorvaldur Hjarðar hjá Vinnueftirliti Austurlands er hann var inntur eftir því hvað vinnustöðvunin í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar yrði löng. Þorvaldur sagði að loftmengunin kæmi að öllum líkindum frá snefilefnum sem koma frá díselknúnum vinnuvélum og væri mengunin mjög staðbundin á stuttum kafla í 12 km löngum aðrennslisgöngum.

Þorvaldur sagði að vandamálið væri á þeim kafla þar sem jarðborinn festist hvað lengst undir Þrælahálsi þegar göngin voru boruð.

„Sérfræðingarnir munu meta mengunarvandann í göngunum skoða aðstæður og huga að úrbótum," sagði Þorvaldur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Ómar Valdimarsson, talsmaður Impregilo, segir að um 460 manns hafi verið að vinna í göngunum á þrískiptum vöktum. Ekki sé enn búið að ákveða hvort þessum mönnum verði falin önnur störf þar til staða mála í göngunum skýrist á fimmtudag. Ómar lagði áherslu á, að Impregilo muni vinna með Vinnueftirliti Austurlands að lausn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka