Deilt um fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi Strætó bs.

Þann 1. júní verða breytingar á leiðarkerfi Strætó bs. Fulltrúar …
Þann 1. júní verða breytingar á leiðarkerfi Strætó bs. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna mótmæla en Sjálfstæðismenn segja færri taka strætó á sumrin Mynd/GRG

Á fundi umhverfisráðs Reykjavíkurborgar í gær voru kynntar breytingar sem verða gerðar á leiðakerfi Strætó bs. 1. júní næstkomandi. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna mótmæltu þeim breytingum og telja að um skerta þjónustu sé að ræða. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn segja hins vegar nauðsynlegt að sýna aðhald í rekstri og að breytingarnar séu eðlileg viðbrögð við fækkun farþega á sumrin.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna telja að vel hefði mátt hugsa sér einhverja fækkun á einstökum leiðum eða tímabilum dags, en of langt sé gengið. Um sé að ræða lengingu á biðtíma á milli ferða og verði biðtími á sumum leiðum allt að 30 mínútum í stað 15 mínútna venjulega. Aðgerðirnar sem kynntar voru í gær geti leitt til fækkunar farþega. Þá segjast borgarfulltrúarnir harma þann skort á samráði, sem hafi einkennt þessar breytingar á leiðarkerfi Strætó bs.

Í bókun Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn segir að miðað við 500 milljóna króna halla á rekstri Strætó bs. undir stjórn fráfarandi meirihluta, verði að bregðast við með einhverjum hætti. Það verði gert með aðhaldi í rekstri og hafi fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Strætó bs. látið telja strætófarþega og athuga hvaða biðstöðvar eru best og verst nýttar og á hvaða tímum. Á grundvelli þeirra upplýsinga sé nú reynt að laga leiðarkerfið að þörfum notenda. Að hausti verði svo tíðni ferða á vinsælustu leiðunum aukin á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka