Áform um byggingu olíuhreinsunarstöðvar stangast á við þá stefnu Fjórðungsþings Vestfirðinga að Vestfirðir skuli vera stóriðjulaust svæði. Þetta kemur fram í grein sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunar- fræðingur og framkvæmdastjóri UMÍS ehf. Environice skrifar á strandir.is.
Meginniðurstaða Stefáns um framleiðslumagn og orkuþörf olíuhreinsunarstöðvar á borð við þá sem rætt hefur verið að reisa í Dýrafirði er að umrædd olíuhreinsistöð hljóti að teljast stóriðja. Fram kemur í grein Stefáns að svifryksmengun frá umræddri stöð gæti orðið á bilinu 85-25.500 tonn á ári.
Einnig gefur Stefán sér að með tilkomu olíuhreinsistöðvarinnar myndi losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis aukast um 30% til viðbótar við þá 10% aukningu frá árinu 1990, sem Íslendingar hafa heimild fyrir fram til 2012 skv. Kyotobókuninni. Losunin frá hreinsistöðinni gæti því orðið allt að 50% meiri en öll losun frá vegasamgöngum. Þessi losun rúmist ekki innan þeirra losunarheimilda sem Ísland hefur skv. Kyotobókuninni, en þann vanda mætti væntanlega leysa þegar fram í sækir með kaupum á kolefniskvóta.
Stefán bendir líka á að tilkoma olíuhreinsistöðvar myndi einnig hafa margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið á Vestfjörðum, m.a. vegna bættra samgangna sem hljóta að fylgja verkefni af þessari stærð. Tilteknar þjónustugreinar munu einnig eflast og tekjur sveitarfélaga aukast en áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu verði líka að taka inn í reikninginn.