Málefni samkynhneigðra hafa lengi verið á dagskrá þjóðkirkjunnar. Í drögum að ályktun kenningarnefndar kemur meðal annars fram að umræðan hér á landi hafi æ meir beinst að því hvort staðfest samvist verði skilgreind sem hjúskapur og hjónaband og prestar verði vígslumenn. Málið hefur verið til umræðu á síðustu prestastefnum og kirkjuþingum og víðar innan kirkjunnar. Í þeim drögum að ályktun sem kenningarnefnd kynnir á prestastefnu nú er ekki lagt til að það skref verði stigið að heimila prestum að gefa einstaklinga af sama kyni saman í hjónaband.
Kristinn Jens Sigurþórsson, sóknarprestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, segir að tillöguflytjendur séu sammála mörgu í tillögum kenningarnefndar en vilji ganga lengra. Drög nefndarinnar breyti litlu sem engu frá þeirri framkvæmd sem verið hefur síðustu tíu árin, frá því prestum var heimilað að blessa samvist samkynhneigðra. Einungis sé verið að styrkja grundvöll þeirrar framkvæmdar með tillögum kenningarnefndar.
"Við viljum að prestar verði opinberir vígslumenn samkynhneigðra sambanda, rétt eins og í hjónabandi," segir Kristinn. Hann telur að sátt sé orðin um það í samfélaginu enda fólk farið að nota orðin hjón og hjónaband um samkynhneigða og sambönd þeirra, rétt eins og einstaklinga af gagnstæðu kyni. "Að okkar skilningi er ekkert guðfræðilega því til fyrirstöðu að prestum verði heimilað að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband," segir Kristinn Jens.
Í greinargerð með tillögu hópsins kemur fram það álit að hjónaband samkynhneigðra varpi á engan hátt skugga á fagnaðarerindi Jesú Krists og náðarmeðul hans, en aftur á móti muni útilokun þeirra frá hjónabandinu draga úr trúverðugleika kirkjunnar.
Umræddur hópur presta gerir aftur á móti tillögur til breytinga á fimmta og sjötta lið ályktunarinnar. Í þeim hluta tillagnanna í drögum kenningarnefndar kemur fram stuðningur við hjónabandið sem sáttmála karls og konu á forsendum hins kristna kærleika og að hún styðji einnig önnur sambúðarform á sömu forsendum. "Þjóðkirkjan styður þá einstaklinga af sama kyni sem vilja búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína og skuldbindingar. Þjóðkirkjan heimilar prestum sínum að blessa sambúð þeirra samkvæmt þar til ætluðu formi," segir þar.
Tillaga 40-menninganna er að þessar tvær greinar verði felldar út og í staðinn komi: "Þjóðkirkjan styður hjónabandið sem sáttmála tveggja einstaklinga sem gefast hvor öðrum í trúfesti, ást og virðingu."
Jafnframt leggja þeir fyrir prestastefnu tillögu að ályktun þar sem lagt er til að þjóðkirkjan fari þess á leit við Alþingi að það samræmi hjúskaparlög og lög um staðfesta samvist þannig að vígslumönnum þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga verði heimilt að annast hjónavígslu samkynhneigðra.