Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagðist á Prestastefnu í dag telja álit Kenningarnefndar varðandi málefni samkynhneigðra veramálamiðlun, sem prestar og leikmenn þjóðkirkjunnar ættu að geta sameinast um að una við. Þá sagði hann ekki að undra þótt þeim sem standi utan kirkjunnar finnist verklag hennar varðandi stöðu og málefni samkynhneigðra varfærið og fálmkennt, „damlandi með árarnar meir og minna í kross."
Kvaðst hann þó telja það sem sumir kalla hik og fálm fremur til marks um varfærni og ábyrgðarkennd. „Vilji menn róa saman þá varðar miklu að vita hvert skal stefna og að vera búinn staðsetningartækjum, kompás og kortum til að finna réttu leiðina," sagði hann. „Ef margir róa saman er mikilvægt að þeir séu sammála um markmiðið og hvort treysta megi sjókortunum og áttavitanum.
Þá sagði hann ákvarðanaferli þjóðkirkjunnar margbrotið og taka tillit til sjónarmiða jafnt leikra sem lærðra. Í áliti Kenningarnefndar sé hins vegar fólgin málamiðlun, „sem prestar og leikmenn þjóðkirkjunnar ættu að geta sameinast um að una við." Ýmsum finnst hún reyndar býsna langt gengið, öðrum of skammt.
Kirkjan þarf að þola skoðanaskipti
Karl sagði í erindi sínu, að kirkjan þurfi að þola skoðanaskipti og andstæð sjónarmið. „Hún þarf að þola meiri margbreytni starfshátta og þarf að forðast að steypa allt í sama mót. Kirkjan er ekki golfvöllur þar sem aðeins er rými fyrir eina grastegund sem klippt er í sömu hæð. Nei, hún er frekar eins og íslenskur úthagi, lyngmói, þar sem fjölbreytt líf þrífst og saman vaxa snarrótarpuntur og holtasóley.”
Þá sagði hann kirkjuna ekki mega láta sér nægja að bregðast við kröfu samfélagsins um að endurskoða grundvöll sinn í ljósi „vísindalegra staðreynda,“ eða almanna samsinnis, heldur verður öll kenning og iðkun kirkjunnar að prófast og dæmast á mælikvarða Guðs orðs, í samfélagi safnaðarins, kirkjunnar, og í trausti til leiðsagnar hans heilaga anda.