Í desember 2006 sóttu 17.216 börn leikskóla á Íslandi og hafa leikskólabörn aldrei verið fleiri, að sögn Hagstofunnar. Leikskólabörnum fjölgaði um 352 frá desember 2005 eða um 2,1% og er það töluvert meiri fjölgun en undanfarin ár. Starfsmönnum í leikskólum fjölgaði einnig milli ára og hafa þeir aldrei verið fleiri en nú.
Alls sækja 81% 1-5 ára barna leikskóla, og er hlutfallið 96% í þriggja ára og fjögurra ára aldurshópunum. Í desember 2006 sóttu 91% tveggja ára barna leikskóla og þriðjungur eins árs barna.
Hagstofan segir, að þegar skoðaðar séu tölur aftur til ársins 1998 sjáist að viðvera barna í leikskólum sé stöðugt að lengjast. Hlutfall þeirra barna, sem skráð eru í a.m.k. 8 tíma viðveru á dag fer sífellt hækkandi.
Árið 1998 voru 40,3% barna í leikskólum skráð í 8 tíma viðveru eða lengur. Fjórum árum síðar er þetta hlutfall komið í 61,7% og árið 2006 voru 75% allra barna í leikskólum skráð í a.m.k. 8 tíma daglega viðveru.
Hærra hlutfall drengja en stúlkna er skráð í lengri viðveru. Þannig voru í desember 2006 75,8% allra drengja í leikskólum í a.m.k. 8 tíma vistun á meðan samsvarandi hlutfall stúlkna var 74,3%. Fyrir tveimur árum voru 70,1% allra drengja í þetta langri vistun en hlutfall stúlkna var 68,4%.
Starfsmönnum við leikskóla fjölgar
Í desember 2006 störfuðu 5012 starfsmenn í 4201 stöðugildi við leikskóla á Íslandi og hafa leikskólastarfsmenn aldrei verið fleiri. Árið áður störfuðu 4735 starfsmenn í 3935 stöðugildum og fjölgaði því starfsmönnum um 277 milli ára. Hlutfallsleg fjölgun starfsmanna er 5,9% sem er töluvert meiri fjölgun en á milli tveggja síðustu ára þar á undan þegar fjölgunin var 0,7%.