Brýnasta hagstjórnarverkefnið að ná stöðugleika í þjóðarbúskapnum

Húsnæði Seðlabankans.
Húsnæði Seðlabankans.

Brýnasta verkefni hagstjórnar, að mati Seðlabankans, er að ná stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Segir bankinn að lok stóriðjuframkvæmda á Austurlandi muni draga sjálfkrafa úr ójafnvægi en hins vegar sé önnur aðlögun hægari en reiknað hafði verið með. Vegna aukinnar vaxtabyrði erlendra skulda dragi síðar úr viðskiptahallanum en búist var við.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Segir bankinn þar, að ein helsta hættan, sem steðji að íslenskum þjóðarbúskap og fjármálakerfinu um þessar mundir, sé hröð og óvænt hækkun á erlendum vöxtum og vaxtaálögum. Skammtímavextir hafi þegar hækkað víða og kunni að hækka frekar. Langtímavextir hafi lítið breyst en gætu tekið að hækka. Vaxtaálög geti breyst fyrirvaralítið vegna breytinga í áhættumati eða áhættusækni fjárfesta.

Seðlabankinn telur að fjármálakerfið sé nú betur undir það búið en fyrir ári, að mæta áföllum, en sá þáttur sem mestu ráði um það sé sterkari lausafjár- og eiginfjárstaða bankanna. Þá er staða ríkissjóðs sterk um þessar mundir sem er mikilvæg forsenda að baki alþjóðlegu lánshæfi bankanna, að sögn Seðlabankans.

„Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Það er fært um að standast hugsanleg áföll í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, miðla lánsfé og greiðslum og dreifa áhættu með viðhlítandi hætti. Það er með öðrum orðum sagt fært um að sinna hlutverki sínu með skipulegum og skilvirkum hætti. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst vel áhættupróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert," segir í skýrslunni.

Fjármálastöðugleiki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert