Fimm grunnskólar fengu viðurkenninguna Varðliðar umhverfisins á degi umhverfisins sem er haldin hátíðlegur í dag. Af því tilefni opnaði umhverfisvefurinn Náttúran.is og Landvernd gaf út leiðarvísinn Skref fyrir skref. Umhverfisráðherra veitti verktakafyrirtækinu Bechtel umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn.
Dagur umhverfisins er að þessu sinni tileinkaður hreinni orku og loftlagsmálum og lýsti Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, því yfir á samkomu á Kjarvalsstöðum í dag, að allar ferðir í bifreiðum og flugvélum á vegum ráðuneytis hennar yrðu kolefnisjafnaðar með skógrækt.
Foldaskóli fékk viðurkenningu fyrir ljósmyndaverkefni sem fjallaði m.a. um mengun og sorphirðu. 5.3 í Hólabrekkuskóla fékk viðurkenningu fyrir verkefnið Ruslpóstur. 9. bekkur í Álftamýrarskóla fyrir verkefnið Við eigum aðeins eina jörð. Nemendur Lýsuhólsskóla fyrir stikun gönguleiðar um Kambsskarð og verkefnið „virkjun Stubbalækjar“. Nemendur í Grunnskóla Tálknafjarðar fyrir umhverfissáttmála og átak í því að hjóla og ganga. Umhverfisráðherra opnaði einnig vefinn natturan.is en frumkvöðull verkefnisins er Guðrún Arndís Tryggvadóttir.
Þá veitti Jónína Bjartmarz verktakafyrirtækinu Bectel Kuðunginn sem er umhverfisviðurkenning Umhverfisráðuneytisins en samkvæmt formanni dómnefndar,Gesti Guðjónssyni, miðlar Bechtel og vinnur eftir umhverfiskerfi sem dregur stórlega úr líkum á umhverfisslysum og mengun. Bectel byggði Álverið á Reyðarfirði.
Leiðarvísirinn Skref fyrir skref sem Landvernd gefur út í samvinnu við Umhverfisráðuneytið fjallar um hvernig megi rækta vistvænan lífsstíl án þess að draga úr lífsgæðum.
Hjalti J. Guðmundsson á Umhverfissviði Reykjavíkurborgar sagði í tilefni dagsins að Reykjavíkurborg vilji taka hnattræna ábyrgð á umhverfismálum og geri það meðal annars með Grænu skrefunum, framkvæmdaáætlun borgarinnar í umhverfismálum.