Einmana börn auðveld bráð

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
Félagslega einangruðum börnum í skólum á Íslandi fer fjölgandi. Skólarnir hafa ekki bolmagn til að sinna þeim nægilega vel. Þessi börn hafa lélega sjálfsmynd, eru óframfærin, einmana, döpur og vinalaus. Þau hafa því mikinn tíma til umráða og Netið freistar þeirra.

"Það eru þessir krakkar sem verða mun oftar þolendur kynferðisofbeldis er tengist Netinu en önnur börn," segir Ólöf Ásta Farestveit, ráðgjafi hjá Barnahúsi. "Þessi einmana börn eru auðveld fórnarlömb, það er auðveldara fyrir kynferðisbrotamenn að lokka þau til að hitta sig."

Á síðustu 15 mánuðum hefur verið kært í 21 máli í þessum málaflokki. "En ég held að þetta séu miklu fleiri börn," segir Ólöf.

Arnar Þorsteinsson, námsráðgjafi til margra ára, segir að rannsókn sem hann vann á einsemd barna hafi leitt í ljós að börnin sögðust flest hafa kviðið því að fara í skólann, "og höfðu gert á hverjum einasta degi, ekki bara mánuðum heldur árum saman", segir Arnar. "Það er alveg óþolandi að það sé til hópur nemenda, óframfærnir kvíðnir krakkar, sem eru með hnút í maganum á hverjum einasta degi þegar þau eru að fara í vinnuna, vinnu sem þau verða að mæta í. Ég hef sagt þetta hundrað sinnum og ég fæ alltaf gæsahúð við tilhugsunina."

Þórunn Ó. Óskarsdóttir, forstöðumaður unglingasmiðjunnar Traðar, segir einangruð börn oft ekki viðurkenna að þau séu einmana, þótt annað komi síðar á daginn. "Þau segjast venjast því, flýja inn í annan hugarheim, gerast einfarar, sökkva sér niður í sjónvarp og tölvuleiki og smám saman verður þetta þeirra eðlilega tilvera og þau þekkja ekkert annað."

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert