Hvalamál tengjast ekki stjórnmálasambandi

Nýsjálenskir fjölmiðlar hafa eftir embættismanni á Salómonseyjum, að hvalveiðar hafi ekki komið við sögu þegar ákveðið var að taka upp stjórnmálasamband við Ísland. Salómonseyjar ollu nokkru uppnámi á síðasta ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins þegar þær studdu ályktanir um að hefja ætti hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju.

Gert er ráð fyrir að þjóðirnar kanni möguleika á samstarfi á sviði sjávarútvegs og nýtingu jarðhita. Fréttavefur Radio New Zealand International segir að Ísland ásamt Japan og Noregi séu í fararbroddi þeirra þjóða sem vilji að hvalveiðar verði leyfðar á ný, en hefur eftir Jeremiah Magele, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis Salómonseyja, að engin tengsl séu á milli þessara mála.

„Við stefnum að því að auka samskipti okkar við lönd sem við teljum að slík samvinna geti gagnast báðum aðilum og Ísland er án efa í þeim hópi vegna fiskveiða og orku. Hvalamálið kom ekkert við sögu þegar ákveðið var að taka upp stjórnmálasamskipti við Ísland," segir Magele.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert