Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.isOrkufyrirtækið Iceland America Energy, sem er að mestum hluta í eigu íslenska fyrirtækisins Enex, hefur samið um smíði og rekstur á 50 MW gufuaflsvirkjun í Kaliforníu og samningar um að leggja hitaveitu á tveimur stórum skíðasvæðum í sama ríki eru á lokastigi auk þess sem fleiri verkefni eru í pípunum. Byrjað verður á fyrstu borholunni vegna virkjunarinnar í sumar og er stefnt að því að bæði virkjunin og hitaveitan verði komnar í gagnið fyrir árslok 2010.
Gufuaflsvirkjunin er skammt frá stærsta stöðuvatni Kaliforníu, Saltonsæ (Salton Sea) og nemur verðmæti samningsins á 20 ára tímabili um einum milljarði Bandaríkjadala eða um 60 milljörðum íslenskra króna, að sögn Tal Clifton Finney, framkvæmdastjóra Iceland America Energy. Skíðasvæðin eru bæði í Sierra Nevada-fjöllunum og er annað þeirra, Mammoth Mountain, með þeim þekktari þar í landi.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.