Framvegis mun Tryggingarstofnun ríkisins taka þátt í kostnaði við nauðsynlega sjúkraþjálfun á hestbaki fyrir einstaklinga sem eru með skaða í miðtaugakerfi. Þetta meðferðarúrræði hefur ekki fengið almenna viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda en úr því var bætt í dag.
Það var gert með undirritun Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, á reglugerð sem felur í sér að framvegis muni Tryggingastofnun ríkisins taka þátt í kostnaði við þessa tegund sjúkraþjálfunar. Á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að undanfarin misseri hafi verið gerð tilraun með að nota hesta við sjúkraþjálfun fatlaðra barna og hafi hún gefið góða raun. Hins vegar hefur Tryggingastofnun ríkisins ekki tekið þátt í kostnaði vegna slíkrar meðferðar.
Undirritunin fór fram á reiðsvæði hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi en viðstaddir voru sjúkraþjálfarar sem hafa veitt þessa meðferð og nokkur þeirra barna sem hafa notið hennar og foreldrar þeirra auk fulltrúar fagfélaga sem koma að málinu.