Böddi kominn í Önundarfjörðinn

Tómas Gunnarsson heldur á jaðrakanum Bödda við Holt í Önundarfirði …
Tómas Gunnarsson heldur á jaðrakanum Bödda við Holt í Önundarfirði 2003. mynd/nave.is

Farfuglarnir streyma til landsins og hefur fjölgað töluvert á Vestfjörðum síðustu daga. Þannig sást maríuerla á Ísafirði í vikunni en ein slík sást í Súðavík fyrir skömmu. Jaðrökum hefur fjölgað í Önundarfirði og var einn litmerktur fugl þar á þriðjudag. Þetta er fugl sem var merktur við Holt 2003 og hefur sést á hverju sumri síðan. Jaðrakinn fékk nafnið Böddi á sínum tíma en fuglinn hefur sést í Portúgal, Norfolk í A-Englandi og Kent í SV-Englandi.

Síðasta vor var Böddi kominn til Önundarfjarðar 30. apríl þannig að hann er heldur fyrr á ferðinni núna.

Landsvala sást í Bolungarvík í gær og önnur sást 20. apríl á Bíldudal. Landsvölur eru algengir flækingar á Íslandi og þær hafa reynt varp hér á landi. Lítið er vitað hvaðan landsvölurnar koma, en hugsanlega eru þær frá Bretlandi. Einnig er hugsanlegt að hingað þvælist landsvölur frá Norður-Ameríku. Landsvölur eru útbreiddar um alla Evrópu.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Náttúrustofu Vestfjarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert