Í kvöld urðu Blönduósingar varir við hvalablástur og sporðaköst um allan sjó við innanverðan Húnafjörð. Undanfarna daga hefur verið mikið um göngur hvala allt inn undir Blönduós og fyrir nokkrum dögum var háhyrningavaða skammt fyrir utan ós Blöndu og kom við það mikil styggð að æðarfuglinum. Kunnugir segja að allt líf í náttúrunni sé með meira móti þetta vorið og virðist vera nægilegt æti fyrir sjávarspendýr og fugla við botn Húnafjarðar. Margir Blönduósingar nýttu sér þessa einstæðu sýn í kvöld sem hægt var að fá gersamlega frítt.
Hvalir sáust blása víðar úr landi í dag, þar á meðal á Skjálfanda. Hvalaskoðunarsumarið við Skjálfanda hefur byrjað vel og hafa farþegar í hvalaskoðunarferðum Norður-Siglingar fengið að sjá stærsta dýr jarðar, steypireyður, í ferðum Bjössa Sör um flóann. Þá hafa fjórir hnúfubakar og jafnmargar hrefnur sýnt sig til þessa.