Hefur maðurinn komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála. Hann var yfirheyrður en rannsóknarhagsmunir kröfðust þess ekki að hann yrði hnepptur í gæsluvarðhald og var honum því sleppt en má vænta ákæru að rannsókn lokinni. Lögreglan segir manninn hafa viðurkennt vörslu efnanna en tjáir sig ekki um hvort grunur sé um að maðurinn hafi smyglað efnunum inn sjálfur. Fleiri hafa ekki verið handteknir vegna rannsóknarinnar.
LSD er ekki algengt fíkniefni á íslenskum fíkniefnamarkaði en þó eru dæmi um stór LSD-mál. Þannig var t.d. karlmaður dæmdur í langt fangelsi árið 2005 fyrir smygl á fíkniefnum þar af tvö þúsund skömmtum af LSD. Þá voru 4 þúsund skammtar teknir í einu máli sama ár og er það mesta magn sem fundist hefur í einu.
Skammtur af efninu mun kosta um tvö þúsund krónur samkvæmt verðkönnun SÁÁ á ólöglegum vímuefnum sem gerð var í október sl.
Að sögn Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi, hefur LSD-neysla heldur farið vaxandi að undanförnu eftir að dregið hafði úr henni á liðnum árum. "Yfirleitt er um tímabundna neyslu að ræða," bendir hann á og bætir við að LSD-istar séu ekki til, á svipaðan hátt og alkóhólistar eða hassistar, svo dæmi séu tekin.
"Menn nota þá ýmis efni saman, s.s. e-pillur og LSD ásamt örvandi efnum," segir hann. Hætturnar við neyslu á LSD felast fyrst og fremst í því að fólk getur orðið stjórnlaust eða geðveikt í vímunni, segir á heimasíðu SÁÁ. Ofskynjanirnar eru þó í réttu hlutfalli við skammtastærð og hættan eykst á slæmum viðbrögðum og geðveiki með stærri skömmtum. Þar kemur einnig fram að vímuáhrif LSD koma á 1 til 2 klukkustundum og fara eftir einstaklingnum sem í hlut á, skammtastærð, aðstæðunum sem efnið er notað við, væntingum neytandans og geðslagi hans. Viðbrögðin eru því mjög breytileg eftir einstaklingum og geta líka verið mjög mismunandi hjá sama einstakling.
Efnið fer misjafnlega í fólk og sumir lýsa reynslunni sem ánægjulegri meðan aðrir lýsa henni sem óskemmtilegri.