Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, var í dag kjörinn stjórnarformaður Landsvirkjunar í dag og Valur Valsson, fyrrverandi bankastjóri, var kjörinn varaformaður. Jóhannes Geir Sigurgeirsson fór úr stjórn Landsvirkjunar á aðalfundi fyrirtækisins í dag. Sagði hann á fundinum að hann hefði getað hugsað sér að sitja í stjórninni í eitt ár í viðbót og fylgja Kárahnjúkaverkefninu eftir fram yfir gangsetningu virkjunarinnar síðar á þessu ári en af því hefði ekki orðið.
Á aðalfundinum í dag voru auk Páls og Vals þau Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur á Akureyri, Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri í Hveragerði og Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, kjörin í stjórn.
Á aðalfundinum var samþykkt að Landsvirkjun greiði 500 milljónir í arð til eiganda síns, íslenska ríkisins.
Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram, að Jóhannes Geir sagðist á fundinum hafa setið í stjórn Landsvirkjunar í 12 ár og þar af 10 ár sem stjórnarformaður.
„Ég gat reyndar hugsað mér að sitja í stjórninni eitt ár í viðbót, en nú liggur fyrir að svo verður ekki. Ég hafði með öðrum orðum áhuga á að fylgja Kárahnjúkaverkefninu eftir fram yfir gangsetningu virkjunarinnar síðar á þessu ári. Ástæðan er sú að þetta verkefni hefur augljósa sérstöðu meðal alls þess sem til kasta stjórnar og stjórnarformanns Landsvirkjunar hefur komið undanafarin ár, enda Kárahnjúkavirkjun vissulega umtöluð og umdeild. Ég er hins vegar eindregið þeirrar skoðunar að virkjunin, og það sem henni fylgir, eigi eftir að sanna sig sem eitt mesta heillasporið í framkvæmda- og atvinnusögu Íslendinga í seinni tíð," sagði Jóhannes Geir.