Sameiginleg sýn á þróun öryggismála staðfest

Valgerður Sverrisdóttir og Kinga Goncz, utanríkisráðherra Ungverjalands, á ráðherrafundi NATO …
Valgerður Sverrisdóttir og Kinga Goncz, utanríkisráðherra Ungverjalands, á ráðherrafundi NATO í Ósló í dag. Reuters

„Við höfum unnið mjög hratt og þetta hefur tekið ótrúlega stuttan tíma," sagði Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, eftir undirritun samkomulags við Norðmenn annars vegar og Dani hins vegar í Ósló fyrr í dag um samstarf í varnar- og öryggismálum á friðartímum.

Valgerður segist telja þýðingarmest við samkomulögin, að með þessu staðfesti ríkin sameiginlega sýn á þróun öryggismála á Norður-Atlantshafssvæðinu til framtíðar litið, Þau séu sammála um gagnsemi þess að vinna saman og að um gagnkvæma hagsmuni sé að ræða.

Valgerður segir að um sé að ræða rammasamkomulag þar sem ekki er fyrirfram ákveðið í smáatriðum út á hvað það gengur. Hins vegar séu tilteknir þættir samstarfsins tilgreindir m.a. um reglubundið samráð embættismanna. „Þetta snýst fyrst og fremst um skipti á upplýsingum, þjálfun og aukið samstarf á sviði friðargæslu og almannavarna. Það er reiknað með heimsóknum og æfingum flughers, flota og sérsveita," segir hún.

„Við sjáum fyrir okkur aukna skipaumferð vegna orkuvinnslu og flutninga. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að samhæfa þá starfsemi sem er til staðar á Norður Atlantshafi og að því leyti er þetta líka umhverfismál," segir Valgerður.

Valgerður segir að ekki hafi verið ákveðið hvenær æfingar hefjast á Keflavíkurflugvelli og geti því ekki sagt til um hvenær samstarfið verður sýnilegt hér á landi. Valgerður segir ekki liggja fyrir hversu mikinn kostnað Ísland mun bera vegna þessa samstarfs en hún segir eðlilegt að Íslendingar kosti meiru til vegna eigin varna og öryggismála.

„Þeir tíma kalda stríðsins eru liðnir að við sitjum bara með hendur í skauti og að aðrir sjái um okkur. Við þurfum að leggja af mörkum."

Per Stig Möller og Valgerður Sverrisdóttir skrifa undir yfirlýsingu í …
Per Stig Möller og Valgerður Sverrisdóttir skrifa undir yfirlýsingu í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka