Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja skiluðu framboðsgögnum inn til yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, laust eftir klukkan eitt í dag. Framboðsfrestur rann út á hádegi í dag, en þá hafði flokkurinn aðeins skilað inn lista og meðmælum til yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi.
Sveinn Sveinsson, oddviti yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður segir að tekið hafi verið á móti gögnunum og að farið verði yfir málið á fundi yfirkjörstjórnar á morgun.
Þórunn Guðmundsdóttir, oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að þar hafi gögnum ekki enn verið skilað inn en tekur í sama streng, tekið verði á móti gögnunum og farið yfir málið í kjölfarið, líklega á morgun. Hún ítrekar þó að framboðsfrestur hafi runnið út á hádegi.