Fjöldi öryggismyndavéla og laugarverðir í Sundlaug Kópavogs

Fimmtán ára nemandi úr Snælandsskóla liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir slys í Sundlaug Kópavogs um klukkan 10 í gærmorgun. Hann fannst meðvitundarlaus á botni laugarinnar og var komið upp á bakkann þar sem endurlífgun fór fram. Tókst að lífga drenginn við og var hann fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann.

Drengurinn var í skólasundi þegar slysið varð en þar sem hann fannst mun dýpið hafa verið rétt rúmur metri skv. upplýsingum Vildísar Guðmundsdóttur, forstöðumanns Sundlaugar Kópavogs.

Í lauginni eru sex öryggismyndavélar auk fleiri eftirlitsvéla uppi á yfirborðinu. Því til viðbótar er alltaf vaktmaður úti við laugina og annar inni til að fylgjast með eftirlitsskjám. Hver innivaktmaður fylgist með myndavélunum í 20 mínútur í senn og þá tekur næsti maður við. Vegna öryggisástæðna má ekki hafa þessar vaktir lengri hjá hverjum og einum, segir Jón Júlíusson, íþróttafulltrúi Kópavogs. Hann segir hafa sést fyrst til drengsins þegar sundkennari frá Hjallaskóla sá hann og hóf kennarinn endurlífgun ásamt laugarstarfsmanni.

"Þetta á ekki að geta gerst"

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar tildrög slyssins og hefur tekið allar upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfinu til rannsóknar og var sundlauginni lokað til kl. 16 á meðan farið var yfir eftirlitskerfin. Vildís segir að við fyrstu athugun sé ekkert sem bendi til að þau hafi brugðist. Hins vegar verði öryggisþættir endurskoðaðir ef nánari rannsókn leiði í ljós misbresti. Hún segir enga leið að gera sér grein fyrir hvernig slysið gat orðið miðað við öryggisviðbúnað.

Þegar slysið varð voru fimm sundkennarar með skólahópa sína í lauginni auk vaktmanna.

Jón Júlíusson harmar slysið og segir að það verði að komast að tildrögum þess og hvort hægt sé að bæta eftirlit til að fyrirbyggja önnur slys. "Það verður að sjálfsögðu allt gert," segir hann. "Það eru bæði eftirlitsvélar og laugarverðir á staðnum og þetta á ekki að geta gerst." Hann segir að í lauginni séu allir öryggisverkferlar yfirfarnir einu sinni á ári og starfsfólk látið gangast undir þjálfun samkvæmt því sem reglur um sundstaði krefjast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert