Hópslysaæfing verður á flugvellinum á Sauðárkróki á morgun. Á æfingunni verður líkt eftir flugslysi og brugðist við í samræmi við viðbragðsáætlun sem gerð hefur verið um atburð sem þennan á flugvellinum. Viðbragðsáætlunin er samin af viðbragðsaðilum í Skagafirði og Flugstoðum ohf. undir ritstjórn almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans.
Einn helsti tilgangur æfingarinnar er að láta reyna á áreiðanleika áætlunarinnar og nýta þá reynslu sem fæst til að bæta hana. Reynslan og lærdómur af flugslysaæfingunni nýtist einnig í annars konar hópslysum.
Flugstoðir og heimamenn í Skagafirði bera hitan og þungan af undirbúningi æfingarinnar. Einnig koma að æfingunni almannavarnadeild ríkislögreglustjórans, Landspítali háskólasjúkrahús, Landhelgisgæslan, Neyðarlínan, Rannsóknarnefnd flugslysa, Rauði krossinn, fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjórans, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Þjóðkirkjan, Slökkvilið Akureyrar og Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu. Á flugslysaæfingunni verður unnið eftir svokölluðu SÁBF skipulagi, sem er samhæft skipulag neyðaraðgerða og tekið var upp á Íslandi árið 2000. SÁBF stendur fyrir Stjórnun – Áætlanir – Bjargir – Framkvæmd. Kerfið tryggir að allar einingar eða starfshópar sem koma að slysi eins og sett verður á svið á Sauðárkróki, vinni saman eftir samhæfðum aðferðum. Æfingin reynir á allt stjórnkerfi almannavarna bæði heima í héraði, þar sem vettvangsstjórn og aðgerðarstjórn starfa og Samhæfingarstöðina í Skógarhlíð sem verður virkjuð.