Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, tilkynnti í dag að ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja 100 milljónum króna til að hefja framkvæmdir við IV áfanga byggingarinnar á Sólborg á árinu 2007.
Heildarkostnaður við byggingu IV áfanga ásamt lóðaframkvæmdum er áætlaður um 700 milljónir króna og stefnt er að því að verkinu verði lokið á þremur árum. Í ávarpi sem Þorgerður Katrín flutti á fundinum kom m.a. fram að bygging fjórða áfanga væri mikilvægur liður í þeirri áætlun stjórnvalda og Háskólans á Akureyri, að öll aðstaða fyrir kennslu og rannsóknir verði byggð upp í húsnæði á háskólasvæðinu á Akureyri. Með því að ljúka fjórða áfanga skapist sá möguleiki að flytja nær alla starfsemi háskólans úr Þingvallastræti yfir á Sólborg og eru þannig verulegar líkur á að kennsla í kennaradeild komist fyrir í húsnæði háskólans á háskólasvæðinu.
Í lok ávarpsins afhenti Þorgerður Katrín Guðmundi Heiðari Frímannssyni, staðgengli rektors, leikfangagröfu sem tákn um að hefja aðgerðir sem allra fyrst. Að því loknu afhjúpaði hún teikningar af byggingaráfanganum sem um ræðir og hannaður hefur verið af Glámu-Kím.