Matthías Halldórsson, landlæknir, og Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, stefna að því að vera í Kárahnjúkum á mánudag og fá upplýsingar um það sem gerðist þegar starfsmenn veiktust af völdum mengunar í aðrennslisgöngum og einnig hvað gerðist varðandi sjúkraskrárnar, sem yfirlæknir á Kárahnjúkum, hefur sagt að Impregilo hafi tekið ófrjálsri hendi.
Matthías segir við Morgunblaðið, að málið þarfnast rannsóknar ofan í kjölinn. Hann segir að þeir Haraldur hafi átt langan fund með Þorsteini Njálssyni, yfirlækni við Kárahnjúka, sem nú er farinn í frí frá Kárahnjúkum, og Stefáni Þórarinssyni lækningaforstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Einnig komu þrír sérfræðingar af Landspítala á fundinn og voru til ráðuneytis um stöðu mála og framhaldið.
Matthías segir að ef rétt reynist að sjúkraskrár hafi verið teknar sé um alvarlegt mál að ræða. Enginn eigi að taka gögn annars án leyfis og þar að auki geti verið um viðkvæm gögn að ræða.