Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála gaf í gær sveitarstjórn Skútustaðahrepps grænt ljós á framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nýs Dettifossvegar er hún hnekkti því áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdin fæli í sér of mikil og óafturkræf umhverfisáhrif. Áður hafði stofnunin talið að hreppnum bæri að sækja um meðmæli fyrir framkvæmdinni og hnekkti nefndin því.
Vegarstæðið var annað af tveimur sem komu til álita í matsskýrslu á umhverfisáhrifum nýs Dettifossvegar og var það skoðun hreppsins að leiðin sem liggur nær Jökulsá á Fjöllum væri fýsilegri en leið austan við núverandi veg, þar eð hún lægi ekki í gegnum nánast algróið land heldur um nær ógróið land og hraun.
„Sveitarstjórnin er ákaflega ánægð og almennt séð eru Mývetningar ánægðir," segir Guðrún María Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Skútustaðahrepps. "Langstærstur hluti hreppsbúa vildi að þetta vegarstæði yrði fyrir valinu."
Guðrún segir fyrirhuguð vegarstæði inni á svæðisskipulagi miðhálendisins og að skoðanamunur hefði verið hvort það væri nógu sterkt, það tæki ekki á því hvar vegurinn ætti að liggja, heldur bara að hann gæti færst frá núverandi vegarstæði.
„Við töldum að svæðisskipulagið tæki á þessu, Skipulagsstofnun taldi svo ekki vera og að við þyrftum að sækja um meðmæli fyrir framkvæmdinni."
Að hennar sögn var samþykkt á sveitastjórnarfundi í gær að veita framkvæmdaleyfi til Vegagerðarinnar, sem yrði nú auglýst. "Menn horfa á tengingu á milli landssvæða. Það er verið að bæta aðgang að náttúruperlum sem þarna eru."