Bóndi á örreytiskotinu Búðarárbakka á Hrunamannaafrétti fær ævisögu sína skrifaða rúmum þremur öldum eftir sinn tíma. Þó eru engar skrifaðar heimildir til um einsetumanninn, sem hét Þorkell, utan ein setning í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er þess getið að hann hafi búið á þessum stað um miðja sautjándu öld.
Ævisagan er byggð á rannsókn í fornleifafræði sem er doktorsverkefni Kristjáns Mímissonar og var rannsóknin kynnt á ráðstefnu um fornleifafræði sem fram fór í Þjóðminjasafni Íslands í dag.
„Það eru til litlar sem engar ritheimildir um karlinn aðrar en þessar línur í Jarðabókinni,“ segir Kristján. „En hann hefur skilið eftir sig mikið af fornminjum, bæði þetta bæjarstæði og einnig Búðarártungu rétt hinumegin við Búðará. Markmiðið hjá mér er að rannsaka þessar efnisminjar, alla þá gripi sem við finnum, ásamt bæjarhúsunum og staðsetningu þeirra í landslaginu, til þess að skrifa einhverskonar brot af ævisögu þessa manns. Þetta er það sem kallað hefur verið á íslensku einsöguleg rannsóknarnálgun.“
Hann segir að sagnfræðingar hafi gert mikið af því að rýna í ævi manna út frá bréfum og dagbókum. „Nú er ég að breyta til og rýna í þær efnisminjar sem fólk hefur skilið eftir.“
– Og hvernig náungi var þetta?
„Við erum enn að vinna að þessu, en hann bjó þarna og hefur sjálfsagt stundað lítinn landbúnað, enda ekki beint svæði til þess. En hann hefur kannski verið með eina kusu og tvær til þrjár rollur. Hann var steinsmiður og hefur búið til stein- eða fiskisleggjur, sem mynda langstærstan hluta af þeim gripum sem við finnum á þessum stað. Sjálfsagt hefur hann verslað með þessar steinsleggjur við sveitunga sína og aflað sér þannig viðurværis.“
Nánar er fjallað um þetta í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.