Fasteignafélag Íslands ráðgerir að reisa 28 hæða turn á lóð félagsins sunnan við Smáralind, skv. heimildum Morgunblaðsins. Turninn yrði yfir 100 metra hár og þar með hæsta hús á Íslandi. Fleiri turnar munu einnig rísa á lóðinni gangi áætlanir félagsins eftir.
Pálmi Kristinsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir afar hentugt að byggja háhýsi á þessu svæði enda sé það í „miðju höfuðborgarsvæðisins".
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, segir markaðinn kalla eftir því að byggt sé hátt og nefnir að eldra fólk sem sé að flytja úr einbýlishúsum vilji gjarnan fara í háhýsi þegar það minnki við sig.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.