Hrópuðu bankarán og fengu tiltal

Lögreglumenn voru kallaðir með hraði að bankaútibúi Glitnis í Lækjargötu í gær vegna tilkynningar starfsfólks um bankarán. Tildrögin voru þau að hópur dimmitterandi framhaldsskólanema í bæjarferð hafði komið með látum inn í bankann og hrópað að um bankarán væri að ræða. „Ég ætla að drepa þig," hrópaði einhver að auki að sögn Hannesar Guðmundssonar útibússtjóra.

Fólki brá á annarri hæð

Um hugsunarlausan hrekk mun hafa verið að ræða, en krakkarnir voru klæddir í víkingaföt og vildu láta ófriðlega. Hannes segir að hrekkurinn hafi ekki valdið teljandi misskilningi hjá starfsfólki á fyrstu hæð hússins enda sást hvers eðlis þessi heimsókn var, en á efri hæðinni var aðra sögu að segja. Þar heyrði fólk ummælin og lætin án þess að sjá hvað var á seyði. Var fólki því brugðið og samkvæmt öryggisreglum var hringt í 112 í stað þess að ganga inn í aðstæður sem eru ókunnar og jafnvel varasamar.

„Lögreglan var komin eftir eina til eina og hálfa mínútu," sagði Hannes. „Lögreglan fann krakkana samkvæmt lýsingu og gerði þeim grein fyrir alvöru málsins. Svona lagað getur frá einu sjónarhorni verið glens og gaman en frá öðru sjónarhorni háalvarlegt því lögreglan ók á vettvang með blikkljósum og setti sig og aðra í ákveðna hættu. Af hálfu bankans munu engin eftirmál verða af þessu."

Hannes segir að krakkarnir hafi líklega talið sig vera að hegða sér að víkingahætti með þessum bægslagangi en hugsunarleysi hafi átt sinn þátt í því að þau vöktu umrædd viðbrögð.

Töluvert hefur verið um dimmitterandi framhaldsskólanema í miðbænum að undanförnu og var gærdagurinn engin undantekning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka