Lögreglumenn voru kallaðir með hraði að bankaútibúi Glitnis í Lækjargötu í gær vegna tilkynningar starfsfólks um bankarán. Tildrögin voru þau að hópur dimmitterandi framhaldsskólanema í bæjarferð hafði komið með látum inn í bankann og hrópað að um bankarán væri að ræða. „Ég ætla að drepa þig," hrópaði einhver að auki að sögn Hannesar Guðmundssonar útibússtjóra.
„Lögreglan var komin eftir eina til eina og hálfa mínútu," sagði Hannes. „Lögreglan fann krakkana samkvæmt lýsingu og gerði þeim grein fyrir alvöru málsins. Svona lagað getur frá einu sjónarhorni verið glens og gaman en frá öðru sjónarhorni háalvarlegt því lögreglan ók á vettvang með blikkljósum og setti sig og aðra í ákveðna hættu. Af hálfu bankans munu engin eftirmál verða af þessu."
Hannes segir að krakkarnir hafi líklega talið sig vera að hegða sér að víkingahætti með þessum bægslagangi en hugsunarleysi hafi átt sinn þátt í því að þau vöktu umrædd viðbrögð.
Töluvert hefur verið um dimmitterandi framhaldsskólanema í miðbænum að undanförnu og var gærdagurinn engin undantekning.