Íslenska kalkþörungafélagið ehf. á Bíldudal fær í dag vottun frá Vottunarstofunni Túni um að fyrirtækið starfi í samræmi við reglur varðandi nám og vinnslu á náttúrulegum aðföngum til lífrænnar ræktunar.
Vottunin nær til tveggja megin þátta í starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins ehf.: (a) kalkþörunganáms á botni Arnarfjarðar, svo og flutnings og meðferðar á hráefninu áður en það er tekið til frekari vinnslu, og (b) úrvinnslu kalkþörunganna og framleiðslu á hágæða fóðri og fóðurbætiefnum.
Með vottun þessari fær fyrirtækið heimild til að merkja og markaðssetja kalkþörunga og afurðir úr þeim sem vottaðar náttúruafurðir og leyfileg aðföng í lífræna landbúnaðarframleiðslu.
Íslenska kalkþörungafélagið ehf. er nýtt íslenskt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Bíldudal við Arnarfjörð. Fyrirtækið er í eigu írska fyrirtækisins Marigot Ltd. t/a Celtic Sea Minerals Ltd., sem á sér langa og farsæla sögu í kalkþörungavinnslu og framleiðslu á fóðurefnum og bætiefnum, og íslenska fyrirtækisins Björgunar efh., sem hefur mikla reynslu af nýtingu efna á hafsbotni, að því er segir í tilkynningu.