Landsbankinn styrkir Snorraverkefnið

Stytta Snorra Sturlusonar stendur í Reykholti.
Stytta Snorra Sturlusonar stendur í Reykholti. mbl.is/Golli

Skrifað var í Winnipeg í dag undir samning milli Landsbankans og Þjóðræknisfélags Íslendinga. Samkvæmt samningnum leggur Landsbankinn Snorraverkefni Þjóðræknifélagsins til sex milljónir króna á næstu fimm árum. Verkefnið hefur að markmiði að efla tengsl fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi við Ísland og hefur það notið mikilla vinsælda.

Að auki mun Landsbankinn veita þátttakendum fræðslu um íslenskt atvinnulíf og sjá um starfsþjálfun nokkurra þeirra í útibúum bankans.

Þjóðræknisfélag Íslendinga stofnaði Snorraverkefnið árið 1998 í samvinnu við Norræna Félagið á Íslandi. Frá árinu 1999 hafa árlega komið hópar ungra afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi til sex vikna dvalar á Íslandi. Þeir hafa notið fræðslu, tekið þátt í daglegum leik og starfi til að kynnast íslensku þjóðlífi, kynnst náttúru Íslands og síðast en ekki síst ættingjum sínum á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert