Slasaður maður, sem fluttur var á sjúkrahús úr húsi í Hveragerði í gærkvöldi, er látinn. Að sögn lögreglu er dánarorsök ókunn en væntanlega mun krufning leiða hana í ljós. Lögregla á Selfossi vinnur að rannsókn málsins og hefur tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakað vettvang. Þá hafa skýrslur verið teknar en lögregla sagði í morgun að enginn hefði verið handtekinn vegna málsins. Ekki er ljóst hvenær niðurstöður krufningar liggja fyrir.
Lögreglan fékk á sjötta tímanum í gær tilkynningu um að maður á sextugsaldri lægi í blóði sínu í húsi í Hveragerði. Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru þegar á vettvang og fluttu manninn á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hann lést.