Landsæfing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á sjó hófst í Vestmannaeyjum í morgun. Um 100 þátttakendur frá 13 björgunarsveitum mættu á svæðið og fengu úthlutað verkefnum. Æfingunni lauk nú síðdegis og tókst hún að öllu leyti vel til.
Auk björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar tóku varðskip Landhelgisgæslunnar þátt í æfingunni ásamt þyrlu.
Meðal þess sem var æft í dag var flutningur á fólki úr brennandi farþegaskipi, en skólaskipið Sæbjörg lék stórt hlutverk í þeirri æfingu.
Kafarar æfðu einnig leit innan hafnar ásamt öðrum verkefnum.
Þá voru ýmis fjallabjörgunarverkefni í gangi þar sem æfð var björgun úr sjávarhömrum sem reynir á samhæfingu báta- og fjallabjörgunarhópa.
Alls voru verkefnin á 4. tug og undirbúningur verkefna hefur verið í höndum björgunarfélags Vestmannaeyja.
Sem fyrr segir lauk æfingunni nú síðdegis en þá var slegið upp grillveislu fyrir þátttakendur og aðstoðarfólk.