Skora á iðnaðar- og fjármálaráðherra að lýsa stuðningi við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefur verið til umræðu að undanförnu …
Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefur verið til umræðu að undanförnu og hefur umhverfisráðherra meðal annars lýst því yfir að vilji hennar standi til að stækka friðlandið. mbl.is/Brynjar Gauti

Náttúruverndarsamtök Íslands skora á iðnaðar- og fjármálaráðherra að lýsa yfir stuðningi við afstöðu umhverfisráðherra sem hefur lýst yfir vilja að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að Norðlingaölduveita yrði úr sögunni. Samtökin benda á að umhverfisráðherra hafi ítrekað afstöðu sína í viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi.

Fram kemur í tilkynningu frá samtökunum að afstaða fjármálaráðherra skipti miklu þar sem hann leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi og fari með hlutabréf ríkisins í Landsvirkjun.

„Fyrrverandi umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir setti málið aftur á byrjunarreit með úrskurði sínum í lok desember 2004 þess efnis að Samvinnunefnd um Svæðisskipulag miðhálendisins hafi verið heimilt að taka Norðlingaölduveitu út af skipulagi sunnan Hofsjökuls.

Minna má á að hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafnaði Norðlingaveitu árið 2005 og samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtökin í nóvember 2004 styðja 65% landsmanna stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Þjóðarpúls Gallup í janúar 2006 sem sýndi að 65% þjóðarinnar eru andvíg Norðlingaölduveitu,“ segir til tilkynningu Náttúruverndarsamtaka Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert