Unglingur í gæsluvarðhald á ný

Eftir Andra Karl andri@mbl.is
Fimmtán ára piltur, fæddur 1991, var í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. júní vegna gruns um að hafa ráðist á leigubílstjóra á fertugsaldri aðfaranótt föstudags. Lögregla handtók piltinn í gærmorgun og var hann þá í annarlegu ástandi. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu, þar af nokkuð oft síðan frá áramótum.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu átti árásin sér stað í Brautarholti á öðrum tímanum. Var hún hrottafengin en pilturinn réðst á leigubílstjórann með barefli og lék hann það illa að maðurinn þurfti að gangast undir aðgerð á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og var haldið á gjörgæsludeild þar til síðdegis í gær. Að sögn sérfræðings á gjörgæsludeild er hann á batavegi og var fluttur á almenna deild.

Í gærmorgun var lögreglu svo tilkynnt um bílþjófnað og var lýsingin svipuð þeirri sem leigubílstjórinn hafði gefið. Pilturinn hafði þá farið inn í búningsklefa sundlaugar, stolið lyklum úr vasa manns og keyrt á brott. Í kjölfar tilkynningarinnar setti lögregla það í forgang að finna bílinn og naut m.a. aðstoðar leigubílstjóra. Bifreiðin fannst yfirgefin og nokkuð skemmd og pilturinn var handtekinn í nágrenninu.

Tók þátt í vopnuðu ráni

Komi til þess verður pilturinn að öllum líkindum ákærður fyrir sérlega hættulega líkamsárás og varðar brotið allt að sextán árum í fangelsi. Hans bíða jafnframt ákærur vegna annarra brota sem framin hafa verið að undanförnu, þar með talið vopnað rán í 10–11-verslun í Hafnarfirði í lok mars sl.

Í kjölfar 10–11-ránsins var pilturinn hnepptur í gæsluvarðhald en sleppt nokkrum dögum síðar þar sem játning lá fyrir. Hann sat þá inni á Litla-Hrauni og upphófust þá umræður um úrræði fyrir svo unga afbrotamenn.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir það í höndum lögreglu að meta hvort pilturinn verði fluttur á Litla-Hraun eða önnur úrræði verði nýtt, s.s. vistun á lokaðri deild á Stuðlum. Þar er m.a. boðið upp á læknisþjónustu barnageðlækna af barna- og unglingageðdeild LSH, en drengurinn var í annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn og virðist vera í töluverðri neyslu. "Þá tel ég það vera einboðið," segir Bragi og vísar til þess að læknarnir veiti nauðsynlega þjónustu, s.s. þegar um afeitrun er að ræða.

Í hnotskurn
» Leigubílstjórinn hringdi í neyðarlínuna kl. 2.19 og tilkynnti árásina. Hann var með mjög mikla áverka á höfði.
» Í kjölfarið var maðurinn fluttur á LSH og gekkst hann undir aðgerð þar. Aðgerðin gekk vel og var hann fluttur á almenna deild eftir stutta dvöl í gjörgæslu.
» Ekki var unnt að yfirheyra piltinn fyrr en um miðjan dag sökum annarlegs ástands hans.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert