Alþjóðlegt framhaldsnám í orkuvísindum byggt upp hér á landi

Gert hefur verið samkomulag um að byggja upp sameiginlegt alþjóðlegt …
Gert hefur verið samkomulag um að byggja upp sameiginlegt alþjóðlegt framhaldsnám í orkuvísindum hér á landi. mbl.is/RAX

Skrifað var í dag undir samkomulag um að byggja upp sameiginlegt alþjóðlegt framhaldsnám í orkuvísindum á vegum Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Orkuveitu Reykjavíkur. Stefnt er að því að rannsóknatengt meistara- og doktorsnám hefjist haustið 2008.

Rektorar háskólanna tveggja, Kristín Ingólfsdóttir og Svafa Grönfeldt, skrifuðu undir samkomulagið ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur.

Aðaláhersla verður lögð á svið þar sem Íslendingar hafa samkeppnisforskot og námið víkkað út eftir því hvar það reynist standa styrkustum fótum. Sérstaða námsins á alþjóðlegum vettvangi skapast af mikilli sérþekkingu í nýtingu jarðhita hér á landi og greiðum aðgangi að vettvangsnámi.

Samstarfsaðilarnir leggja hver sitt af mörkum til að skapa framsækið nám á sviði orkufræða. Með samstarfinu verður settur á laggirnar hinn alþjóðlegur skóli sem kenndur verður við Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems. Orkuveitan verður bakhjarl námsins faglega og fjárhagslega. Háskólarnir munu skipta með sér verkum við skipulagningu námsins, þjónustu við nemendur, auk þess að leggja til kennara og aðstöðu.

Boðið verður upp á rannsóknartengt meistaranám og doktorsnám auk styttri námsbrauta. Þá verður í boði sí- og endurmenntun fyrir starfsmenn fyrirtækja í orku- og fjármálageiranum og fyrir starfsmenn opinberra stofnana innan lands og utan. Náminu er ætlað að byggja á þremur megin stoðum, í fyrsta lagi á hagnýtingu endurnýtanlegra orkugjafa, í öðru lagi á tækni og í þriðja lagi á náttúru og markaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert