Fjölmargar kvartanir hafa borist lögreglunni á Akureyri í dag vegna sinuelds sem logað hefur á jörð bónda í Eyjafirðinum. Lögreglan segist lítið geta gert sökum þess að bóndinn hefur öll tilskilin leyfi til þess að brenna sinu.
Lögreglan segir t.a.m. að henni hafi borist kvörtun frá einni móður sem gat ekki látið ungt barn sitt sofa úti í barnavagninum sökum reyksins sem hefur lagt yfir bæinn og út fjörðinn.
Þá hafði faðir drengs samband við lögregluna og kvartaði undan því að pilturinn, sem er með astma, gæti ekki leikið sér úti í góða veðrinu vegna sinubrunans.
Lögreglan tekur það fram að bóndinn hafi tilkynnt að hann hygðist brenna sinu í dag. Honum var hinsvegar bent á að það væri kannski ekki æskilegt að gera þetta en hann sagðist hafa öll tilskilin leyfi til þess að brenna sinuna á sinni landareign.