17 ára ökumaður sem haft hefur ökuréttindi í um hálft ár var tekinn á 141 kílómetra hraða á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ klukkan í nótt þar sem hámarkshraði er 60. Leiða má líkur að því að hinn ungi ökumaður fái þann vafasama heiður að verða sá fyrsti sem settur verður í akstursbann þar til hann hefur staðist ökupróf að nýju, samkvæmt ákvæði í nýjum umferðarlögum sem tóku gildi á föstudag.
Guðbrandur Sigurðarson, aðalvarðstjóri umferðarlögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögin nýju breyti engu varðandi vinnuaðferðir umferðarlögreglunnar en að þar á bæ fagni menn öllum þeim nýjungum sem geti orðið til þess að draga úr ofsaakstri.
Segir Guðbrandur að þetta tiltekna mál fari sinn farveg og því eigi eftir að koma í ljós hvort viðkomandi ökumaður þarf að taka ökuprófið á ný. Ef til kemur þarf pilturinn að standa straum af ökuprófinu sjálfur auk þess sem hann verður líklega sviptur ökuréttindum og dæmdur til að greiða sekt.