Framkvæmdir eru að hefjast við niðurrif Félagsheimilis Kópavogsbæjar og í staðinn verður húsnæðið nýtt fyrir yfirstjórn bæjarins. Félögin sem stofnuðu Félagsheimilið á sínum tíma hafa öll selt sinn hlut í því en það voru skátarnir í Kópavogi, Kvenfélag Kópavogs, UBK og Leikfélag Kópavogs.
„Félagsheimilið er barns síns tíma, núna hættum við að reka veitingaþjónustu og vasast í niðurgreiddum samkvæmisrekstri sem er ekki sniðugt," sagði Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag.
Gunnar sagði að í stað leiksýninga og skemmtanahalds verði símaþjónusta, innheimta, tölvudeild og launabókhald bæjarins í húsnæðinu sem og 100 manna salur fyrir bæjarstjórn.
Nú stendur yfir leiksýning í Félagsheimilinu en lokum þeirrar sýningar hefur verið flýtt. Leikfélag Kópavogs hefur fest kaup á nýju húsnæði með stuðningi bæjaryfirvalda.