Ársskammtur Íslendinga af dagblöðum og auglýsingapósti dugar til þess að þekja vegakerfi landsins rúmlega fimm sinnum. Að meðaltali berast 176 kg. af dagblaðapappír og auglýsingapósti berast inn á hvert heimili í landinu og er það 76% meira magn en barst inn á heimilin árið 2003. Þetta var rætt á stjórnarfundi Sorpu í dag og kemur fram á bloggsíðu Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs.
Á vefsíðu Björns Inga segir að Fenúr, sem er fagráð um endurnýtingu og úrgang, hafi staðið fyrir rannsókn á síðasta ári, þar sem 17 heimili víðs vegar um landið tóku þátt í mælingum á magni pappírs sem berst inn um póstlúgur landsmanna. Til samanburðar er samskonar könnun sem gerð var árið 2003.
Í rannsókninni kom fram að árlega berist inn á íslensk heimili 32 kg. af auglýsingapósti en 144 kg. af dagblöðum. Fyrir fjórum árum var þetta magn umtalsvert minna, eða 100 kg. af pappír á hvert heimili, þar af 19 kg. af auglýsingapósti eða s.k. frípósti.
Sorpa lætur vinna rannsóknir árlega á sorpi því sem fellur til á heimilum höfuðborgarsvæðisins. Í fyrra er talið að dagblöð og tímarit hafi verið um 27% þess sem endaði í heimilissorpi höfuðborgarbúa, en árið 2003 var hlutfallið um 15%. Á sama tíma hefur endurvinnsla þeirra aukist úr 5.188 tonnum í 8.400 tonn á starfssvæði fyrirtækisins, eða um 62%. Segir á vefsíðu Björns Inga að pappírnyum fylgi umtalsverður kostnaður fyrir sveitarfélögin og sem hafi vaxið mjög á undanförnum árum, ekki síst fyrir tilstilli nýrra fríblaða sem dreift er í hvert hús.