Krafan 1. maí að fátækt verði útrýmt á Íslandi

Hefðbundin kröfuganga verður í Reykjavík 1. maí.
Hefðbundin kröfuganga verður í Reykjavík 1. maí.

„Það er krafa dagsins að fátækt verði útrýmt í einu ríkasta landi veraldar," segir í ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands í tilefni af baráttudegi verkamanna, 1. maí.

Í ávarpinu segir, að á tímum aukins misréttis og vaxandi ójafnaðar í tekjuskiptingu þjóðarinnar sé mikilvægt að launafólk snúi bökum saman til að bæta kjör launafólks og vinna að því að útrýma fátækt í landinu. Yfir 5000 börn á Íslandi lifi undir fátæktarmörkum og bilið milli ofurlaunamanna og þeirra sem lifa á almennum launakjörum breikkar stöðugt. Þeir sem hafi lifibrauð sitt af fjármagnstekjum búa við allt aðra skattlagningu en almennt launafólk. Þetta misrétti í launa- og skattamálum verði að uppræta.

Þá þurfi að gera stórátak í að bæta kjör aldraðra og öryrkja og mikilvægt sé, að draga úr tekjutengingu bóta.

Baráttufundir í tilefni dagsins verða um allt land. Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi kl. 13 en gangan leggur af stað kl. 13:30 niður Laugaveg á Ingólfstorg þar sem útifundur hefst klukkan 14:10. Þar mun Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, m.a. flytja ávarp.

Ávarp í tilefni af 1. maí

Dagskrá Einingar-Iðju á Akureyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka