Rannsaka þarf hvort mansal teygi anga sína hingað

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra.
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra. mbl.is/Lárus

Val­gerður Sverr­is­dótt­ir, ut­an­rík­is­ráðherra, sagði í fyr­ir­lestri í Há­skól­an­um á Ak­ur­eyri í dag, að rann­saka þurfi hvort rétt sé, að man­salið, versti fylgi­fisk­ur klámiðnaðar­ins, teygi anga sína hingað til lands og ein­hverj­ar þær stúlk­ur, sem starfa hér á landi sem svo­kallaðir dans­ar­ar, séu ekki á Íslandi af fús­um og frjáls­um vilja.

Val­gerður sagði, að Íslend­ing­ar þyrftu að halda vöku sinni og tak­ast á við þau vanda­mál sem hér skytu upp koll­in­um.

„Vart get­ur það verið annað en brot á mann­rétt­ind­um þegar börn­in okk­ar verða fyr­ir einelti og öðru of­beldi í skól­um lands­ins eða í net­heim­um, eins og ný­leg dæmi eru um? Hvað með klám­væðing­una og fylgi­fiska henn­ar, man­sal, kúg­un og of­beldi. Síðast um helg­ina var í frétt­um haldið fram að versti fylgi­fisk­ur klámiðnaðar­ins, man­salið, teygði anga sína hingað til lands. Ein­hverj­ar þær stúlk­ur sem hér starfa sem svo­kallaðir dans­ar­ar séu ekki á Íslandi af fús­um og frjáls­um vilja. Þetta þarf að rann­saka og ég held að það geti vart verið flókið í svo litlu sam­fé­lagi sem við lif­um í. Hörmu­leg­ur aðbúnaður verka­fólks og iðnaðarmanna, sem hír­ist í hús­næði sem vart er bjóðandi og á kjör­um sem ekki eru í lík­ingu við þau sem hér­lend­ir njóta, eru einnig tölu­vert í frétt­um. Ég vona að þau dæmi sem tek­in hafi verið séu eins­dæmi en ekki merki um að virðing fyr­ir sam­borg­ur­um okk­ar og rétt­ind­um þeirra fari þverr­andi og gróðasjón­ar­miðin standi ein eft­ir," sagði Val­gerður.

Hún sagði, að mann­rétt­inda­mál­um væri gjarn­an skipað á bekk með mjúku mál­un­um svo­kölluðu og þannig gefið til kynna að þau skipti ekki jafn miklu máli og hin hörðu mál.

„En ég hlýt að spyrja: Hvað er „mjúkt“ við pynt­ing­ar, dauðarefs­ing­ar, kyn­ferðis­legt of­beldi og barnaþrælk­un? Svona skil­grein­ing­ar stand­ast vit­an­lega enga skoðun," sagði Val­gerður.

Hún sagði að í rúm­lega 150 ríkj­um heims væru dæmi um að pynt­ing­um og öðrum grimmi­leg­um aðferðum sé beitt og í um 70 þess­ara ríkja sé slíkt ástand út­breitt eða viðvar­andi. Af­tök­ur séu framd­ar víða í heim­in­um án dóms og laga og þannig grund­vall­ar­rétt­ur­inn til lífs virt­ur að vett­ugi. Yfir 80 ríki heims leggi blátt bann við kyn­ferðis­sam­bandi milli ein­stak­linga af sama kyni og í sum­um ríkj­um heims er sam­kyn­hneigð refsi­verð að viðlagðri dauðarefs­ingu. Þá sé áætlað að 100 til 140 millj­ón­ir kvenna og stúlkna hafi verið þvingaðar til að gang­ast und­ir kyn­færalim­lest­ing­ar af ein­hverju tagi.

Val­gerður sagði að Ísland hafi hlut­verki að gegna í bar­átt­unni gegn mann­rétt­inda­brot­um á alþjóðavett­vangi og nefndi sem dæmi, að á síðasta ári hafi komið hingað til lands fjöl­menn sendi­nefnd frá Afr­íku­rík­inu Dj­í­bútí, skipuð 30 karl­mönn­um. Nokkr­um dög­um fyr­ir heim­sókn­ina birtu Sam­einuðu þjóðirn­ar skýrslu sem sýndi mjög bág­borið ástand mann­rétt­inda­mála í land­inu.

„Ég stóð frammi fyr­ir þeirri spurn­ingu hvort ég ætti að hitta ut­an­rík­is­ráðherr­ann, eða sína vanþókn­un ís­lenskra stjórn­valda með því að hitta hann ekki. Ég tók þá ákvörðun að hitta ut­an­rík­is­ráðherr­ann og ræða við hann um mann­rétt­inda­mál. Okk­ar rödd heyr­ist nefni­lega og hún skipt­ir máli. Auðvitað geta verið uppi þær aðstæður að rétt­ast sé að halda sig til hlés, en al­mennt er ég þeirr­ar skoðunar að rétt sé að tal­ast við og eiga sam­skipti. Ef mála­til­búnaður viðmæl­and­ans er gagn­rýni­verður er hægt að freista þess að hafa þar já­kvæð áhrif á. Ríki sem ekki fylg­ir sann­fær­ingu sinni eft­ir á alþjóðavett­vangi á lítið er­indi í ör­ygg­is­ráð S.þ. eða aðrar ábyrgðastöður á alþjóðavett­vangi," sagði Val­gerður.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka