Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði í fyrirlestri í Háskólanum á Akureyri í dag, að rannsaka þurfi hvort rétt sé, að mansalið, versti fylgifiskur klámiðnaðarins, teygi anga sína hingað til lands og einhverjar þær stúlkur, sem starfa hér á landi sem svokallaðir dansarar, séu ekki á Íslandi af fúsum og frjálsum vilja.
Valgerður sagði, að Íslendingar þyrftu að halda vöku sinni og takast á við þau vandamál sem hér skytu upp kollinum.
„Vart getur það verið annað en brot á mannréttindum þegar börnin okkar verða fyrir einelti og öðru ofbeldi í skólum landsins eða í netheimum, eins og nýleg dæmi eru um? Hvað með klámvæðinguna og fylgifiska hennar, mansal, kúgun og ofbeldi. Síðast um helgina var í fréttum haldið fram að versti fylgifiskur klámiðnaðarins, mansalið, teygði anga sína hingað til lands. Einhverjar þær stúlkur sem hér starfa sem svokallaðir dansarar séu ekki á Íslandi af fúsum og frjálsum vilja. Þetta þarf að rannsaka og ég held að það geti vart verið flókið í svo litlu samfélagi sem við lifum í. Hörmulegur aðbúnaður verkafólks og iðnaðarmanna, sem hírist í húsnæði sem vart er bjóðandi og á kjörum sem ekki eru í líkingu við þau sem hérlendir njóta, eru einnig töluvert í fréttum. Ég vona að þau dæmi sem tekin hafi verið séu einsdæmi en ekki merki um að virðing fyrir samborgurum okkar og réttindum þeirra fari þverrandi og gróðasjónarmiðin standi ein eftir," sagði Valgerður.
Hún sagði, að mannréttindamálum væri gjarnan skipað á bekk með mjúku málunum svokölluðu og þannig gefið til kynna að þau skipti ekki jafn miklu máli og hin hörðu mál.
„En ég hlýt að spyrja: Hvað er „mjúkt“ við pyntingar, dauðarefsingar, kynferðislegt ofbeldi og barnaþrælkun? Svona skilgreiningar standast vitanlega enga skoðun," sagði Valgerður.
Hún sagði að í rúmlega 150 ríkjum heims væru dæmi um að pyntingum og öðrum grimmilegum aðferðum sé beitt og í um 70 þessara ríkja sé slíkt ástand útbreitt eða viðvarandi. Aftökur séu framdar víða í heiminum án dóms og laga og þannig grundvallarrétturinn til lífs virtur að vettugi. Yfir 80 ríki heims leggi blátt bann við kynferðissambandi milli einstaklinga af sama kyni og í sumum ríkjum heims er samkynhneigð refsiverð að viðlagðri dauðarefsingu. Þá sé áætlað að 100 til 140 milljónir kvenna og stúlkna hafi verið þvingaðar til að gangast undir kynfæralimlestingar af einhverju tagi.
Valgerður sagði að Ísland hafi hlutverki að gegna í baráttunni gegn mannréttindabrotum á alþjóðavettvangi og nefndi sem dæmi, að á síðasta ári hafi komið hingað til lands fjölmenn sendinefnd frá Afríkuríkinu Djíbútí, skipuð 30 karlmönnum. Nokkrum dögum fyrir heimsóknina birtu Sameinuðu þjóðirnar skýrslu sem sýndi mjög bágborið ástand mannréttindamála í landinu.
„Ég stóð frammi fyrir þeirri spurningu hvort ég ætti að hitta utanríkisráðherrann, eða sína vanþóknun íslenskra stjórnvalda með því að hitta hann ekki. Ég tók þá ákvörðun að hitta utanríkisráðherrann og ræða við hann um mannréttindamál. Okkar rödd heyrist nefnilega og hún skiptir máli. Auðvitað geta verið uppi þær aðstæður að réttast sé að halda sig til hlés, en almennt er ég þeirrar skoðunar að rétt sé að talast við og eiga samskipti. Ef málatilbúnaður viðmælandans er gagnrýniverður er hægt að freista þess að hafa þar jákvæð áhrif á. Ríki sem ekki fylgir sannfæringu sinni eftir á alþjóðavettvangi á lítið erindi í öryggisráð S.þ. eða aðrar ábyrgðastöður á alþjóðavettvangi," sagði Valgerður.