Sinueldar kveiktir með leyfi sýslumanns; kallað eftir lagabreytingum

Sinubruni í Eyjafirði um helgina.
Sinubruni í Eyjafirði um helgina. mbl.is/Hafþór

Slökkvilið Akureyrar hefur sent frá sér tilkynningu vegna þeirra sinubruna sem nokkrir bændur brenndu í Eyjafjarðarsveit um helgina og Fréttavefur Morgunblaðsins greindi frá í gær. Þar segir að slökkviliðið hefði gjarnan viljað slökkva þennan eld en þegar menn hafi leyfi sýslumanns og lögin bak við sig þá geti slökkviliðið lítið gert nema kalla eftir breytingum á viðkomandi lögum.

Eins og greint var frá í gær bárust lögreglunni á Akureyri fjölmargar kvartanir frá íbúum vegna sinubrunans.

Í sunnanáttinni barst reykurinn yfir nærliggjandi sveitir. Á laugardaginn fengu íbúar austan fjarðar reykinn yfir sig en í blíðviðrinu í gær barst reykurinn yfir Akureyri og Hörgárbyggð segir slökkviliðið.

„Þessir aðilar brenndu sinu með leyfi Sýslumannsins á Akureyri en að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að Slökkvilið Akureyrar kemur ekki að þessum leyfisveitingum og hefur ekki verið leitað umsagnar Slökkviliðsins áður en þessi leyfi eru veitt enda ekki ákvæði um slíkt í lögum.

Lögin taka heldur illa á mengunarþætti þess að brenna sinu en slökkviliðsstjóri getur aðeins gert athugasemdir ef hætta er á útbreiðslu elds eða mannvirki eða gróður eru í hættu. Það er mat yfirstjórnar Slökkviliðs Akureyrar að þessum lögum þyrfti að breyta og reyndar er það mat sérfræðinga að slíka brennslu ætti ekki að leyfa,“ segir í tilkynningu frá Slökkviliði Akureyrar.

Vefsíða Slökkviliðs Akureyrar

Lög um sinubrennur.

Reglugerð um sinubrennur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka