Sjónlistadagur í Reykjavík

Efnt verður til Sjónlistadags í Reykjavík 1. maí n.k en þá verða vinnustofur listamanna og hönnuða opnar í báðum endum bæjarins, á Korpúlfsstöðum og Seljavegi 32 og á báðum stöðum verður hægt að skoða samsýningar.

Dagskráin hefst kl. 13 en þá opnar borgarstjórinn í Reykjavík Sjónlistamiðstöðina á Korpúlfsstöðum formlega. Vinnustofur hússins verða opnar en þar eru starfandi 40 myndlistarmenn og hönnuðir. Handhafar Íslensku sjónlistaorðunnar 2006, myndlistarmennirnir Magnús Pálsson og Hildur Bjarnadóttir og hönnuðurinn Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir sýna verk sín í gömlu hlöðunni.

Einnig verður sýning á afrakstri vetrarstarfs nemenda Myndlistarskólans í Reykjavík en skólinn hefur rekið útibú að Korpúlfsstöðum í vetur. Fleira verður á dagskrá, s.s. tískusýning á vegum Xirena skreytifatnaðar. Gestaíbúðin verður til sýnis en þar er rúm fyrir þrjá gesti hverju sinni. Opið verður á Korpúlfsstöðum til kl. 17.

Vinnustofur SÍM í Listamannahúsinu Seljavegi 32 verða opnar milli kl. 15 og 18. Á Seljaveginum, þar sem höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar voru áður til húsa, eru 47 vinnustofur myndlistarmanna og sex herbergja gestaíbúð. Þar verður jafnframt opnuð sýning á verkum fjögurra listamanna sem hafa lagt þungt lóð á vogarskálarnar í myndlistarkennslu gegnum tíðina. Þetta eru listmálararnir Bragi Ásgeirsson, Einar Hákonarson, Hafsteinn Austmann, Kjartan Guðjónsson og Kristján Davíðsson. Vill SÍM með þessu vekja athygli á ötulu ævistarfi listamannanna að vexti og viðgangi íslenskra sjónlista. Sýningin verður opin milli kl. 14 og 17 fimmtudaga, föstudaga og laugardaga til loka maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka