Skarð rofið í götumynd Austurstrætis

Viðbygging við og skúrar voru fjarlægðir skömmu fyrir hádegi.
Viðbygging við og skúrar voru fjarlægðir skömmu fyrir hádegi. mbl.is/Dagur Gunnarsson

Skömmu fyrir hádegi voru síðustu leifar af viðbyggingum og skúrum sem stóðu við Austurstræti 22 fjarlægðar með öflugum krana með gripkló. Að sögn starfsmanna hafa þeir fengið fyrirmæli um að hreyfa ekki við öðru í bili. Það brak sem fjarlægt var í dag var sá hluti af skemmtistaðnum Pravda sem stóð næst Hressingarskálanum og mun sá hluti hússins hafa verið að mestu leyti nýr eða uppgerður.

Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri Minjaverndar sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að þessar viðbyggingar og skúrar hefðu ekki verið hluti af upphaflega húsinu.

Þorsteinn sagði að reist yrði öflug girðing meðfram Austurstrætislóðinni og á vinnupalla sem reistir verða í kringum Austurstræti 2 verði settar ljósmyndir af húsunum og að öllum líkindum yrði það sú götumynd sem vegfarendur sæju í sumar.

Hann bætti við að allir sem hlut ættu að málinu væru samhentir í því að leysa þetta verkefni á eins fljótvirkan hátt og unnt væri.

Þorsteinn sagði að fimm arkitektar hefðu verið ráðnir til að skrásetja það sem eftir er af húsunum sem urðu eldinum að bráð síðasta vetrardag og að þeir myndu jafnframt vinna að hönnunartillögu sem yrði lögð fyrir hlutaðkomandi aðila svosem húsfriðunarnefnd og borgaryfirvöld sem og eigendur húsanna.

Gripklóin fjarlægði brakið.
Gripklóin fjarlægði brakið. mbl.is/Dagur Gunnarsson
Götumynd Austurstrætis breyttist í dag.
Götumynd Austurstrætis breyttist í dag. mbl.is/Dagur Gunnarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert