17 urriðar veiddust á fyrstu vakt í Elliðaám

Veiðimenn renna fyrir silung í Elliðavatni í dag.
Veiðimenn renna fyrir silung í Elliðavatni í dag. mbl.is/Golli

Urriðaveiði hófst í ofanverðum Elliðaám í morgun. Veiðisvæðið er bundið við efsta hluta ánna, eða frá veiðistaðnum Hrauni og upp í Höfuðhyl og er veitt á tvær stangir. Á fyrstu vaktinni í morgun veiddust sautján urriðar, allir á flugu, sem er eina leyfilega agnið í vorveiðinni.

Þá hófst einnig veiði í Elliðavatni og var veiðin góð þar í dag.

Á heimasíðu Stangveiðifélags Reykjavíkur er haft eftir Jóni Þ. Einarssyni, sem er annar tveggja veiðivarða við Elliðaárnar, að urriðarnir sautján veiddust á hinar ýmsu flugur sem er eina leyfilega agnið í vorveiðinni. Fimmtán urriðanna voru hefðbundnir hálfs til eins punda fiskar en tveir voru stærri, og var annar þeirra um fimm pundin.

Allir silungarnir þessa fyrstu vakt fengust í Hólmatagli og í Höfuðhyl, fyrir utan einn úr Ármótum. Reyndu veiðimenn fyrir sér annarsstaðar á svæðinu án árangurs.

Silungsveiðarnar í Elliðaánum eru stundaðar út maímánuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert